Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2025

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2025 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 29. október 2025.

Helstu niðurstöður árshlutareikningsins eru:

Meðfylgjandi er árshlutaskýrsla sem inniheldur árshlutareikning vegna fyrstu níu mánaða ársins ásamt ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en fram koma í tilkynningunni.

Rekstur félagsins

Kröftugur vöxtur var í tekjum og EBITDA félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins og var reksturinn í takt við uppfærða áætlun. Rekstrartekjur félagsins námu 9.296 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 og jukust um 9,2% m.v. sama tímabil 2024. Þar af voru leigutekjur 7.980 m.kr. og var raunvöxtur miðað við sambærilegt eignasafn tæplega 5,1% á milli ára. Rekstrarkostnaður nam 3.463 m.kr. Þar af var einskiptiskostnaður um 135 m.kr.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 5.833 m.kr. samanborið við 5.537 m.kr. á sama tímabili árið áður. Leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði nam EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins 5.968 m.kr. og jókst um 7,8% milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 4.755 m.kr. og heildarhagnaður samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 nam 3.804 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði) nam 72,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 samanborið við 73,4% fyrir sama tímabil 2024.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 163.349 m.kr. þann 30. september 2025. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 152.811 m.kr. og eignir til eigin nota námu 5.450 m.kr. Eigið fé félagsins nam 53.071 m.kr. í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfall 32,5%. Á aðalfundi félagsins þann 10. apríl 2025 var samþykkt að greiða út arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð 3.393,4 m.kr. sem samþykkt var að greiddur yrði í tveimur greiðslum. Fyrri greiðslan að fjárhæð 1.696,7 m.kr. var greidd til hluthafa þann 23. apríl 2025 og seinni greiðslan að sömu fjárhæð var greidd 8. október 2025. Staða eiginfjár og eiginfjárhlutfalls þann 30. september 2025 er að teknu tillit til skuldbindinga vegna greiðslu á seinni hluta arðgreiðslu.

Heildarskuldir félagsins námu 110.278 m.kr. þann 30. september 2025. Þar af voru vaxtaberandi skuldir 88.360 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 15.102 m.kr. Veðhlutfall félagsins, þ.e. nettó staða vaxtaberandi skulda á móti virði fasteigna og byggingarheimilda var 55,7% að teknu tilliti til samþykkts ógreidds arðs. Hlutfall verðtryggðra lána var tæplega 97,4% við lok þriðja ársfjórðungs 2025. Félagið gaf út nýjan skuldabréfaflokk, EIK 150536, í byrjun febrúar 2025. Flokkurinn ber 3,8% verðtryggða vexti og var selt fyrir 4.000 m.kr. í byrjun febrúar og 2.000 m.kr. í lok febrúar í þeim flokki. Þann 20. október 2025 var flokkurinn stækkaður enn frekar þegar seld voru skuldabréf fyrir 2.500 m.kr. að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 4,12%. Heildarstærð flokksins eftir þá stækkun er 8.500 m.kr. Stækkunin í október verður nýtt til uppgreiðslu á EIK 25 1 sem er á lokagjalddaga í desember 2025. Þá framlengdi félagið verðtryggð bankalán að fjárhæð 1.360 m.kr. á óbreyttum kjörum til þriggja ára.

Eignasafn félagsins

Félagið undirritaði kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Festingar hf. í lok maí síðastliðnum. Fasteignir Festingar á Íslandi eru um 43 þúsund fermetrar að stærð í 12 fasteignum og hýsa starfsemi Samskipa hf. á Íslandi og gerðir verða 20 ára leigusamningur um eignirnar frá og með afhendingu á hlutafé Festingar. Kaupin voru meðal annars háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en frestur eftirlitsins til ógildingar vegna kaupanna voru miðuð við 2. október 2025 og barst félaginu ekki tilkynning frá eftirlitinu fyrir þann tíma um áframhaldandi rannsókn málsins. Þann 8. október 2025 barst félaginu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þar sem fram kom að eftirlitið teldi ekki forsendur til þess að aðhafast frekar vegna kaupanna. Félagið  vinnur nú að frágangi viðskiptanna.

Rauðarárstígur 27 var seldur í lok febrúar 2025 og var eignin afhent við sömu tímamót. Söluhagnaður fasteignarinnar nam um 42 m.kr.

Virðisútleiguhlutfall

Útleiga félagsins gekk vel á fyrstu níu mánuðum ársins og hefur virðisútleiguhlutfallið hækkað um 2% stig frá áramótum og var 95,6% í lok fjórðungsins.

Félagið skrifaði undir leigusamninga við nýja og núverandi leigutaka fyrir um 30.500 fm. Þar má helst nefna leigusamning um alla 2. hæð Skeifunnar 8, leigusamning um fasteignina að Smiðshöfða 9, stækkun leigutaka í Holtasmára 1, leigusamninga fyrir um 3.100 fm. í Smáratorgi 3, um 1.000 fm. í Kvosinni og rúmlega 500 fm.á Glerártorgi. Þá fékk félagið rúmlega 16.800 fm. til baka úr leigu á tímabilinu.

Uppfærðar horfur

Félagið hefur uppfært horfur fyrir árið 2025 og væntir þess rekstrartekjur ársins verði 12.360 – 12.610 m.kr. á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í nóvember 2025. Þar af eru leigutekjur áætlaðar á bilinu 10.650 – 10.870 m.kr. Þá væntir félagið að EBITDA ársins 2025 verði á bilinu 7.760 – 7.920 m.kr.

Áætlanir félagsins gera ekki ráð fyrir tekjum né kostnaði af fasteignum Festingar hf. á árinu 2025. Tilkynnt verður sérstaklega um lúkningu viðskipta og áhrif á félagið eftir því sem við á.

Uppfærðar horfur taka m.a. mið af samkomulagi sem félagið gerði á öðrum ársfjórðungi við einn leigutaka um slit á leigusamningi sem hefur um 80 m.kr. áhrif til lækkunar á árinu 2025. Þrátt fyrir það er félagið innan upphaflegs spábils.

Félagið væntir þess nú að virðisútleiguhlutfallið verði á bilinu 94-95% við lok árs 2025. Hefur útleiga á þróunarfermetrum gengið hægar en væntingar voru um á fyrstu níu mánuðum ársins. Af þeim tæplega 11 þúsund þróunarfermetrum sem félagið ráðgerði að gera útleiguhæfa fyrir lok árs 2025 hefur verið skrifað undir leigusamninga fyrir um 4.800 fm. Útleiga á þeim 6.100 fm. sem eftir eru mun dragast inn á árið 2026 en viðræður eru í gangi um leigu á nokkrum af þeim rýmum.Þegar félagið hefur náð markmiðum sínum um 95% virðisútleiguhlutfall og að teknu tilliti til útleigu á umræddum 6.100 þróunarfermetrum væntir félagið að leigutekjur á ársgrundvelli m.v. núverandi eignasafn, uppfærðar horfur og án áhrifa vegna kaupa á öllu hlutafé Festingar hf. hækki um 470 - 510 m.kr.

Nýtt skipurit

Þann 26. ágúst síðastliðinn tilkynnti félagið um nýtt skipurit í kjölfar skipulagsbreytinga sem tók gildi sama dag. Markmið breytinganna er að setja þjónustu við viðskiptavini í forgrunn ásamt því að einfalda og skýra boðleiðir í rekstri félagsins. Nýtt svið, Viðskiptavinir, sameinar útleigu, húsumhyggju og viðskiptaþróun í eina heild. Upplýsingatækni færist undir fjármálasvið og lögfræðideild undir skrifstofu forstjóra. Í kjölfar breytinganna fækkar úr sjö í fjóra í framkvæmdastjórn.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 30. október 2025 klukkan 8:30 á skrifstofu félagsins á 18. hæð í Smáratorgi 3. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl. 8.00. Hreiðar Már Hermannsson, forstjóri og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.

Fundinum verður einnig streymt á netinu og fer skráning á rafræna fundinn fram hér:

https://vimeo.com/event/5470381/280f835425

Eftir skráningu fá þátttakendur tölvupóst með nánari upplýsingum.

Markaðsaðilar geta sent spurningar fyrir fundinn á netfangið fjarfestatengsl@eik.is. Spurningum verður svarað að kynningu lokinni.

Fjárhagsdagatal

Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:


Stjórnendauppgjör 2025 og áætlun 2026       5. febrúar 2026
Ársuppgjör 2025                                             12. mars 2026

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.

Nánari upplýsingar veita:

Hreiðar Már Hermannsson, forstjóri, hreidar@eik.is  s. 856-5907
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 820-8980