Icelandair: Sylvía Kristín Ólafsdóttir hættir störfum sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum hjá Icelandair. Sylvía tók við sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs í ágúst 2023 eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála frá byrjun árs 2022 en hún hóf fyrst störf hjá Icelandair árið 2018. Sylvía mun starfa áfram hjá félaginu næstu mánuði og aðstoða við yfirfærslu ábyrgðar og verkefna.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Ég vil þakka Sylvíu fyrir frábær störf í þágu Icelandair á undanförnum árum. Undir hennar stjórn hefur mjög góður árangur náðst á mörgum sviðum flugrekstrarins sem endurspeglast meðal annars í vel heppnaðri innleiðingu á Airbus flugvélum í flota félagsins, jákvæðri þróun einingakostnaðar og framúrskarandi stundvísi. Það verður söknuður af henni úr teyminu okkar og ég óska henni alls hins besta í næstu verkefnum.“

Sylvía Kristín Ólafsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs:
„Undanfarin ár hjá Icelandair hafa verið í senn lærdómsrík, krefjandi og skemmtileg. Meðal þess sem stendur upp úr er innleiðing á Airbus vélum í flugflotann með öflugu teymi, ásamt stafrænni vegferð í rekstrinum sem hefur skilað aukinni skilvirkni. Ég er þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið hjá félaginu í gegnum tíðina, reynsluna sem ég hef öðlast og fyrir frábært samstarfsfólk mitt. Ég mun sakna þeirra og Icelandair og óska þeim og félaginu góðs gengis í framtíðinni.“

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir. Netfang: iris@icelandair.is
Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is