Icelandair: Farþegum til Íslands fjölgaði um 15% í september

Icelandair flutti alls 479 þúsund farþega í september sem er aukning um 5% milli ára. Vöxturinn var mikill á markaðnum til Íslands, þar sem farþegafjöldi jókst um 15% milli ára, og á markaðnum frá Íslandi þar sem aukningin var 12%, sem endurspeglar áherslu félagsins á þá markaði. Í mánuðinum voru 34% farþega á leið til Íslands, 17% frá Íslandi, 44% voru tengifarþegar og 5% ferðuðust innanlands. Sætanýting nam 81,7% og stundvísi var 87,2%, sem er aukning um 0,6 prósentustig samanborið við síðasta ár. Það sem af er ári hafa 3,9 milljónir farþega flogið með Icelandair, sem eru 7% fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Leiguflugsstarfsemin hélt áfram að vaxa með 3% aukningu í seldum blokktímum á milli ára og 38% aukningu frá ársbyrjun. Fraktflutningar, mældir í tonnkílómetrum, drógust saman um 12%, en hafa aukist um 2% það sem af er ári. Kolefnislosun á hvern tonnkílómetra dróst saman um 1%.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Við höldum áfram að sjá hlutfall farþega til og frá landinu aukast. Heildarfjöldi farþega jókst um 5% í samanburði við september 2024 sem er í takt við markmið okkar um að vaxa utan háannar til að jafna árstíðarsveiflu í starfseminni og til að hámarka nýtingu innviða félagsins. Í mánuðinum hófum við flug til fjögurra nýrra áfangastaða og síðar í þessum mánuði bætum við þeim fimmta við, Miami í Flórída. Það er mjög ánægjulegt að sjá áframhaldandi frábæra stundvísi. Þessi árangur er fyrst og fremst að þakka frábærri frammistöðu starfsfólks félagsins og áframhaldandi áherslu okkar á skilvirkni í rekstrinum.“

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandair.is
Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is