Síminn hf. - Afkoma þriðja ársfjórðungs 2025

Helstu niðurstöður úr rekstri á 3F 2025

María Björk Einarsdóttir, forstjóri:

„Fjórðungurinn einkenndist af traustum rekstri, vexti í afkomu og sókn nýrra tekjustoða. Rekstrarhagnaður eykst umtalsvert frá fyrra ári og sjóðstreymi af rekstrinum er sterkt. Vel heppnuð endurfjármögnun til viðbótar við sterkan efnahagsreikning Símans mynda traustan grunn undir áframhaldandi sókn samstæðunnar á komandi misserum.

Tekjur aukast í farsíma og auglýsingasölu frá fyrra ári auk þess sem fjártækni drífur áframhaldandi vöxt annarra tekjuþátta. Auglýsingatekjur í umhverfis- og sjónvarpsmiðlum jukust um tæplega 13% á milli ára. Þá hefur Síminn samið um sölu og þjónustu á Starlink gervihnattalausnum til fyrirtækja í gegnum dótturfélagið Radíómiðun í takt við áherslu á öfluga vöruþróun á fyrirtækjamarkaði, en lausnirnar hafa hlotið góðar viðtökur.

Tekjur af sjónvarpsþjónustu dragast saman um 5% milli ára, en um helming má rekja til þess að samkeppnisaðili hætti að endurselja Sjónvarp Símans Premium. Samdrátturinn er í takt við það sem gert var ráð fyrir við brotthvarf enska boltans en kostnaður hefur þó lækkað umfram tekjuáhrifin eins og spár okkar gerðu ráð fyrir.

Síminn hefur gætt réttar síns af festu í þessum efnum undanfarna mánuði og jákvætt er að niðurstöður stjórnvalda hingað til gefa til kynna að jafnt verði látið yfir alla ganga þegar kemur að flutningsrétti línulegs efnis.

Raunveruleikaefni úr smiðju Hayu hefur náð milljón spilunum á sjónvarpskerfi Símans frá innleiðingu síðsumars og á annan tug þúsunda viðskiptavina hafa virkjað áskrift að HBO Max veitunni sem nú er innifalin í Sjónvarpi Símans Premium. Framboð vandaðs innlends sjónvarpsefnis hefur aldrei verið meira og enn á eftir að frumsýna tvær íslenskar þáttaraðir á árinu. Niðurstöður nýlegrar könnunar Maskínu eru afdráttarlausar um að Sjónvarp Símans Premium sé talin besta innlenda sjónvarpsveitan og markmiðið að sækja enn frekar fram á komandi misserum.

Síminn lauk nýlega endurfjármögnun á bankalánum sínum, en samningurinn er til fjögurra ára og tryggir hagstæðari kjör og aukið aðgengi að fjármagni.

Í takt við áherslu á áframhaldandi vöxt verður nú hafist handa við undirbúning að breyttu skipulagi samstæðunnar. Þannig verður fjarskipta- og miðlarekstur félagsins færður í nýtt dótturfélag, en hlutverk móðurfélagsins verður að styðja við vöxt og þróun samstæðunnar og veita rekstrarfélögum stoðþjónustu. Breytingarnar auka yfirsýn yfir stærð og afkomu rekstrareininga, auka gagnsæi gagnvart fjárfestum og greiða fyrir nýjum vaxtartækifærum.

Markmiðið til lengri tíma er að skapa öfluga samstæðu félaga í stafrænni þjónustu, sem getur sinnt fjölbreyttum þörfum fólks og fyrirtækja á enn breiðara sviði.“

Kynningarfundur 22. október 2025

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 22. október 2025 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu María Björk Einarsdóttir forstjóri og Hjörtur Þór Steindórsson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í streymi á vefslóðinni: www.siminn.is/fjarfestakynning-2025.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Fjárhagsdagatal 2025

Ársuppgjör 2025             17. febrúar 2026

Aðalfundur 2026            12. mars 2026


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans (maria@siminn.is)

Hjörtur Þór Steindórsson, fjármálastjóri Símans (hjortur.steindorsson@siminn.is)