Á aðalfundi Nova klúbbsins þann 27. mars 2025 var stjórn veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun byggða á 10. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og gera kaupréttarsamninga við starfsfólk félagsins um kaup á hlutum í félaginu.
Kaupréttur samkvæmt áætluninni nær til alls fastráðins starfsfólks Nova klúbbsins og dótturfélaga þess, og er markmið áætlunarinnar að tengja hagsmuni starfsfólks við afkomu og langtímamarkmið félagsins og hluthafa þess. Samkvæmt áætluninni öðlast hver kaupréttarhafi rétt til að kaupa hluti í Nova klúbbnum hf., fyrir að hámarki kr. 500.000 í senn, þrisvar sinnum á 12 mánaða fresti frá gerð kaupréttarsamnings, eða samtals fyrir allt að kr. 1.500.000.
Nú hafa verið gerðir kaupréttarsamningar við starfsfólk í samræmi við kaupréttaráætlunina. Kaupverð hluta er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf í félaginu síðustu 10 viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 6. nóvember, eða kr. 4,69 á hvern hlut.
Alls gerðu 133 starfsmenn Nova klúbbsins og dótturfélaga kaupréttarsamninga. Áætlaður heildarkostnaður (gjaldfærsla) vegna þessara kaupréttarsamninga, skv. Black-Scholes módelinu, er að fjárhæð 11,6 m.kr.
Kaupréttaráætlunin var staðfest af ríkisskattstjóra þann 16. október 2025 og er í samræmi við 10. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Kaupréttaráætlunin er meðfylgjandi.
