Uppgjör Ísfélags hf. á þriðja ársfjórðungi 2025

Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra: 

Afkoma Ísfélagsins á þriðja ársfjórðungi var ágæt og skýrist einkum af því að annars vegar gengu veiðar og vinnsla á makríl mjög vel og hins vegar aflaði Sólberg ÓF 1, frystitogari félagsins, vel á tímabilinu. Einnig hefur verð á helstu afurðum félagsins verið gott og sala afurða gengið vel á árinu. Hjá fyrirtækjum sem stunda uppsjávarvinnslu sveiflast birgðastaðan oft mikið milli vertíða og í lok þriðja ársfjórðungs var talsvert til af birgðum í uppsjávarfiski.  

Félagið hefur fjárfest mikið á yfirstandandi ári. Uppsjávarskip sem keypt var frá Skotlandi, Heimaey VE, leysti af hólmi eldra skip með sama nafni. Mjölverksmiðja félagsins í Eyjum var stækkuð töluvert og ný frystigeymsla á Þórshöfn var tekin í notkun í júlí. Þá er vert að nefna hlutafjáraukningu Austur Holding AS í Kaldvík AS sem Ísfélagið fjármagnaði í júní. Ísfélagið lagði til 341 milljón NOK í téðri hlutafjáraukningu en félagið á 29,3% hlut í Austur Holding AS. Að endingu ber að geta þess að félagið gerði heildarlánasamning við hóp banka í byrjun árs 2025. 

Þrátt fyrir miklar fjárfestingar á árinu er félagið fjárhagslega stöndugt og fyrir hendi er geta hjá félaginu til að fjárfesta og styrkja rekstur þess til lengri tíma. Miklar hækkanir á sköttum eins og veiðigjaldi og kolefnisgjaldi munu hins vegar hafa mjög neikvæð áhrif á reksturinn strax á næsta ári og öll sú óvissa sem fylgir slíkum skattahækkunum mun óhjákvæmilega hafa áhrif á og draga úr fjárfestingaráhuga sjávarútvegsfélaga að öllu öðru óbreyttu. Tíminn einn mun leiða í ljós hver  áhrif þessara illa ígrunduðu skattahækkana verða. Verri samkeppnisstaða sjávarútvegsins er þegar komin fram í þeirri staðreynd að fiskur er nú fluttur óunninn úr landi í meiri mæli en undanfarin ár. 

Í október varð stórbruni í verksmiðju Primex í Fjallabyggð, en félagið er dótturfélag Ísfélagsins. Endurreisn er þegar hafin. Primex er vel tryggt og mun þetta óhapp hafa lítil áhrif á fjárhag Ísfélagsins. 

Í nóvember var skrifað undir viljayfirlýsingu sem markar tímamót í orkumálum í Langanesbyggð. Ráðherra orkumála, fulltrúar Rarik og Landsnets skrifuðu undir viljayfirlýsingu þar sem segir að ráðist verði strax í aðgerðir á Norðausturlandi til að auka afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku. Með þessum framkvæmdum skapast á næstu árum forsendur fyrir notkun grænnar raforku í fiskmjölsverksmiðju Ísfélagsins á Þórshöfn og aukinni atvinnuuppbyggingu og jákvæðri byggðaþróun á svæðinu. 

Markaðir hafa verið góðir á tímabilinu, verð á þorski, ýsu og makríl hefur hækkað mikið milli ára og verð á frosnum síldarafurðum hefur haldist gott. Heildarafli skipa félagsins á þriðja fjórðungi ársins var 35.300 tonn samanborið við 23.100 tonn á sama tímabili árið 2024. Framleiddar afurðir voru 23.400 tonn samanborið við 16.400 tonn á sama tímabili í fyrra. 

Fyrirsjáanlegt er að veiðiheimildir í makríl og kolmunna munu dragast mikið saman á næsta ári. Tillögur um auknar veiðar í norsk-íslenskri síld vega því miður aðeins að litlu leyti upp á móti niðurskurðinum í fyrrnefndum tegundum. Þá eru líkur á minnkandi þorskkvóta og það eru takmörk fyrir því hversu mikið verð á afurðum getur hækkað. 

Hafrannsóknastofnunin hefur gefið út upphafskvóta í loðnu fyrir næstu vetrarvertíð. Ég bind vonir við að hægt verði að auka kvótann eftir frekari loðnuleit, sem til stendur að fara í fyrir lok janúar. Sú leit mun, eins og undanfarin ár, byggjast á góðu samstarfi Hafrannsóknastofnunarinnar og loðnuútgerðanna að því gefnu að atvinnuvegaráðuneytið veiti stofnuninni það fjármagn sem þarf til þessa brýna verkefnis.


Helsta úr starfseminni.  




Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins.  

Rekstur.  

Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 74,7 m.USD og á fyrstu 9 mánuðum ársins 2025 námu þær 150,4 m.USD samanborið við 120,6 m.USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.  

Hagnaður  þriðja ársfjórðungs nam 17,9 m.USD og nam hagnaður fyrstu níu mánuði ársins 2025 því 8,3 m.USD, samanborið við 9,7 m.USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.   

EBITDA framlegð á þriðja ársfjórðungi var 33,1 m.USD eða 44,3%. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 var EBITDA framlegðin 50,8 m.USD eða 33,8% af rekstrartekjum.   

Efnahagur.  

Heildareignir Ísfélagsins voru 871,7 m.USD í lok september sl., þar af voru fastafjármunir 721,0 m.USD og veltufjármunir 150,7 m.USD.   

Í árslok 2024 voru heildareignir 778,1 m.USD, þar af voru fastafjármunir 682,9 m.USD og veltufjármunir 95,1 m.USD. Heildareignir hækkuðu um 93,7 m.USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2025. Rekja má hækkunina að mestu leyti til hækkunar rekstrarfjármuna, viðskiptakrafna og skammtímalána til tengdra aðila.   

Eigið fé Ísfélagsins var 554,2 m.USD þann 30.9.2025, en var 550,7 m.USD í lok árs 2024. Eiginfjárhlutfallið var 63,6% þann 30.9.2025 en í lok árs 2024 var eiginfjárhlutfallið 70,8%.   

Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 193,5 m.USD í lok september sl. en voru í árslok 2024, 90,7 m.USD.   


Sjóðstreymi.  

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 var handbært fé frá rekstri 3,4 m.USD, samanborið við 45,5 m.USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2024. Fjárfestingarhreyfingar fyrstu 9 mánuði ársins voru neikvæðar um 73,1 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 41,9 m.USD. Lækkun á handbæru fé á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 var 22,2 m.USD að teknu tilliti til gengismunar og var handbært fé í lok tímabilsins 14,0 m.USD.  


Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrstu níu mánuðum ársins 2025.  

Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrstu 9 mánaða ársins 2025 (129,45) voru rekstrartekjur félagsins 19,5 milljarðar króna, rekstrarhagnaður 4,9 milljarðar króna, hagnaður eftir skatta 1,1 milljarður króna og EBITDA 6,6 milljarðar króna.   

Sé staða á efnahag félagsins þann 30. september sl. færð í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (121,28), eru heildareignir 105,7 milljarðar króna, fastafjármunir 87,5 milljarðar króna og veltufjármunir 18,3 milljarðar króna. Eigið fé í lok þriðja ársfjórðungs 2025 var 67,2 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 38,5 milljarðar króna.   

Hluthafar. 

Lokaverð hlutabréfa í lok þriðja ársfjórðungs var 125 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 102,2 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 2.950. 

Samþykkt árshlutareiknings. 

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Ísfélagsins þann 28. nóvember 2025. Árshlutareikningur er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla um árshlutareikninga, IAS 34. Árshlutareikningurinn er ekki kannaður af endurskoðendum félagsins. 


Nánari upplýsingar veitir Stefán Friðriksson, forstjóri.